Enski boltinn

Það verður aldrei annar Paul Scholes hjá Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Scholes fagnar sigurmarki sínu um helgina.
Paul Scholes fagnar sigurmarki sínu um helgina. Mynd/AFP
Darren Fletcher er ánægður með Paul Scholes, félaga sinn á miðju Manchester United, en segir þó að Scholes fái aldrei þá viðurkenningu sem hann á skilið vegna þess að hann forðist sviðsljósið.

Scholes hefur þó verið í sviðsljósinu síðustu daga eftir að hann tryggði United dýrmætan sigur í uppbótartíma á móti nágrönnunum í Manchester City um síðustu helgi.

„Við munum aldrei sjá annan Paul Scholes hjá Manchester United. Hann er goðsögn og viðmiðun fyrir aðra knattspyrnumenn," sagði Darren Fletcher við blaðamenn.

„Hann hefur ekki áhuga á lífi nútíma fótboltamannsins utan vallar en hann er heimsklassa leikmaður inn á vellinum," sagði Fletcher.

„Hann hefur aldrei fengið þá viðurkenningu sem hann á skilið fyrir utan Manchester United af því að hann sækir ekki í sviðsljós fjölmiðlanna. Hann veitir aldrei viðtöl eða gefur kost á sér í svoleiðis hluti," segir Darren Fletcher.

„Ég trúi því ekki að hann hafi aldrei verið tilnefndur til Alþjóðlegra verðlauna því hann var að skora 20 mörk á tímabili af miðjunni þegar hann var á hátindi ferilsins," segir Darren Fletcher.

„Á laugardaginn var hann besti maður vallarins fyrir utan að skora markið í lokin. Hann stjórnaði algjörlega tempóinu í leiknum. Ef ég get spilað eitthvað í líkingu við þetta þegar ég verð 35 ára þá yrði ég himinlifandi með það," sagði Darren Fletcher.

„Það býst enginn við því að hann sé að hlaupa vítateigana á milli allan leikinn. Núna velur hann sér tímann fyrir hlaupin sín," sagði Fletcher um félaga sinn Paul Scholes.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×