Enski boltinn

Gyan vill komast til Englands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Asamoah Gyan.
Asamoah Gyan. Nordic Photos / AFP

Asamoah Gyan, leikmaður landsliðs Gana og Rennes í Frakklandi, segist gjarnan vilja komast að hjá liði í ensku úrvalsdeildinni.

Gyan lék vel með Gana á HM í Suður-Afríku en verður þó helst minnst fyrir að misnota vítaspyrnu í lok framlengingarinnar í leik Gana og Úrúgvæ í fjórðungsúrslitum keppninnar.

Gyan fékk þá tækifæri til að tryggja sínum mönnum sæti í undanúrslitunum en þess í stað réðust úrslitin í vítaspyrnukeppni þar sem Úrúgvæ hafði betur.

Hann hefur að undanförnu verið orðaður við West Ham og Sunderland en talið er líklegt að hann muni fara frá Rennes í sumar.

 

 

„Mig hefur alltaf dreymt um að spila í ensku úrvalsdeildinni," sagði Gyan serm er 24 ára gamall. „Því fyrr, því betra. Ég vil fá að reyna mig gegn bestu varnarmönnum ensku úrvalsdeildarinnar."

Hann segir að hann hafi nú sætt sig við vítaspyrnuklúðrið fræga. „Mér líður vel. Ég hugsa stundum um vítið en það er eðlilegt. Þetta var tækifæri til að ná einstökum árangri. En þetta er allt hluti af áætlunum guðs."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×