Enski boltinn

Þarf Hodgson að velja á milli Liverpool og enska landsliðsins?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hodgson hefur verið í Suður-Afríku fyrir breska ríkissjónvarpið.
Hodgson hefur verið í Suður-Afríku fyrir breska ríkissjónvarpið. Nordic Photos / Getty Images
Enskir fjölmiðlar velta því nú fyrir sér hvort að Roy Hogdson þurfi að velja á milli að gerast annað hvort knattspyrnustjóri Liverpool eða þjálfari enska landsliðsins.

Hogdson er nú stjóri Fulham en hefur verið sterklega orðaður við Liverpool á undanförnum vikum. Er fullyrt að hann sé aðeins hársbreidd frá því að taka við félaginu.

Hins vegar hefur slæmt gengi enska landsliðsins á HM í Suður-Afríku orðið til þess að efast er um að Fabio Capello muni starfa áfram sem landsliðsþjálfari. Háværar raddir eru um að fá enskan þjálfara aftur í starfið og því þykir líklegt að Hodgson eigi möguleika á að fá starfið.

Samkvæmt enska götublaðinu Mirror eru stjórnarmenn Liverpool þess fullvissir að til þess komi ekki og að Hodgson muni taka við Liverpool. Samkvæmt sömu frétt er fullyrt að gengið verði frá ráðningunni í lok vikunnar.

Forráðamenn Liverpool munu hafa rætt við marga knattspyrnustjóra vegna starfsins. Þeirra á meðal má nefna Didier Deschamps, Frank Rijkaard, Mauricio Pellegrini og vitanlega Hodgson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×