Íslenski boltinn

Logi: Ætlaði að vera hættur þessu þegar kallið kom frá KR 2007

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Logi Ólafsson, þjálfari KR.
Logi Ólafsson, þjálfari KR. Mynd/Anton
Logi Ólafsson hætti í dag sem þjálfari KR en hann hefur þjálfað liðið frá því í lok júlí fyrir tæpum þremur árum síðan.

„Þetta er bæði svekkjandi og leiðinlegt í senn. Við ræddum málin í morgun og niðurstaðan var sú að það þyrfti að gera einhverjar breytingar," sagði Logi Ólafsson.

„Þetta snýst bara fyrst og fremst um úrslit þegar svona ákvörðun er tekin. Við vorum oft á tíðum yfirburðarlið inn á vellinum en samt sem áður gerum við jafntefli eða töpuðum okkar leikjum. Við náum ekki að fylgja eftir góðum leikjum," segir Logi en KR-liðið hefur náð í 13 stig út úr fyrstu 11 deildarleikjum tímabilsins og er sem stendur í fjórða neðsta sæti deildarinnar.

„Það býr miklu meira í þessu liði og óánægjan snýst um það að úrslitin hafa ekki verið okkur í hag. Staðan er ekki góð í töflunni og menn töldu að þetta væri niðurstaða sem væri best fyrir liðið," segir Logi.

„Ég get verið svekktur að fara frá þessu eins og staðan er núna en ég er stoltur að öðru leiti. Mér finnst að ég hafi unnið ágætis starf fyrir þetta félag miðað við að taka við því í neðsta sæti 2007, halda liðinu í deildinni þá, vinna titil 2008 og spila vel í fyrra," segir Logi sem hefur þjálfað í efstu deild karla frá því að hann tók við Víkingum 1990.

„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það sem tekur við. Það er gott að fá frí þó að það hefði verið betra að fá það með öðrum hætti. Ég mun ekki sitja aðgerðalaus því ég hef nóg að gera hvort sem það verður á sviði knattspyrnu veit ég nú ekki," segir Logi og bætti við:

„Ég ætlaði að vera hættur þessu þegar kallið kom frá KR 2007 því ég er búin að reyna allt í íslenskum fótbolta. Mér fannst þetta mjög ögrandi verkefni sem það var. Ég vissi að ég sæti í heitu sæti með að vera þjálfari hjá KR," sagði Logi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×