Innlent

Tillögu um rannsóknarnefnd vísað til bæjarstjóra

Ólafur Þór Gunnarsson, oddviti VG í Kópavogi.
Ólafur Þór Gunnarsson, oddviti VG í Kópavogi.

Tillögu bæjarfulltrúa Vinstri grænna í Kópavogi um að skipuð verði nefnd til að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu bæjarins var ekki samþykkt af meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Henni var vísað til umsagnar bæjarstjóra.

Ólafur Þór Gunnarsson bæjarfulltrúi VG í Kópavogi lagði tillöguna fyrir bæjarráð. Hún felur í sér að skipuð verði nefnd þriggja óháðra sérfræðinga sem hafi það verkefni að yfirfara stjórnkerfi og stjórnsýslu Kópavogsbæjar í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og leggja fram tillögur að þeim breytingum sem hún telur þörf á. Ólafur Þór vill að nefndin fái fullan aðgang að skjalasafni Kópavogsbæjar og öllum gögnum er varða stjórnsýslu bæjarins.

„Tillögunni var vísað til umsagnar bæjarstjóra, sem er bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins. Ég upplifði það á fundinum að menn treystu sér ekki til að samþykkja tillögu eins og þessa sem er í öllum meginatriðum nákvæmlega eins og tillaga sem samþykkt var samhljóða í borgarráði rvk í síðustu viku," segir Ólafur.

Hann segist telja að í kjölfar skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sé krafa um það í samfélaginu að farið sé ofan í vinnubrögð og verkferla og „að sveitarfélögin alveg jafnt og alþingi og ríkisstjórn fari í ákveðna naflaskoðun til að tryggja það að vinnubrögð standist skoðun og þoli dagsljósið."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×