Innlent

Kragh hefur óskað eftir endurupptöku sakamáls vegna orða burðardýrs

Breki Logason skrifar
Þorsteinn Kragh fékk sjö og hálft ár fyrir risasmygl.
Þorsteinn Kragh fékk sjö og hálft ár fyrir risasmygl.

Þorsteinn Kragh, sem afplánar níu ára fangelsisdóm vegna smygls á tæplega 200 kílóum af fíkniefnum, hefur sent inn formlega beiðni til Hæstaréttar um endurupptöku á máli sínu. Enskukunnátta hollensks burðardýrs virðist lykilatriði í því hvernig beiðni Þorsteins verður tekið.

Í fréttum okkar fyrir skömmu sögðum við frá því að burðardýrið í máli Þorsteins, Hollendingurinn Jacob Van Hinte, hefði skrifað bréf úr fangelsinu á Litla-Hrauni, þar sem hann sagði Þorstein saklausan í málinu. Hann væri fórnarlamb glæpagengsi í Hollandi sem væri raunverulegur skipuleggjandi smyglsins.

Helgi Jóhannesson verjandi Þorsteins, staðfestir í samtali við fréttastofu að Þorsteinn hafi sent Hæstarétti formlega beiðni um endurupptöku málsins, en ekkert svar hafi borist þaðan. Rökin fyrir endurupptökunni, eru meðal annars þær upplýsingar sem fram koma í bréfinu umrædda.

Þar biður Jacob Þorstein meðal annars um að fyrirgefa sér að hafa bendlað hann við málið, en segir að líf sitt hefði annars verið í hættu. Hann sé nú orðinn heilsuveill, eigi skammt eftir ólifað, og vilji skilja við guð og menn með hreina samvisku.

Lögregla telur bréfið afar ótrúverðugt og efast í raun um að Jacob sjálfur hafi ritað það. Meðal annars vegna þess að það sé skrifað á ensku sem sé ekki hans sterkasta hlið.

Athygli vekur hinsvegar að enskukunnátta Jacobs var ekki dregin í efa þegar málið var flutt fyrir dómi. Þá bað Jacob sjálfur um að túlkað yrði fyrir sig á ensku, frekar en hollensku, og var Ellen Ingvadóttir löggiltur dómtúlkur fengin til þess.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun Jacob nær eingöngu hafa leigt sér enskar bækur á bókasafninu á Litla-Hrauni, auk þess sem hann var áskrifandi af New York Times.

Jacob afplánar nú sjö og hálfs árs fangelsisdóm í Hollandi, en hann mun sjálfur hafa farið þess á leit við fangelsismálayfirvöld að fá að ljúka afplánun í heimalandinu.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×