Innlent

Árásin á Suðurlandsbraut var tilefnislaus

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árás á sextán ára gamla stúlku við Suðurlandsbraut í dag virðist hafa verið með öllu tilefnislaus, segir Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn. Lögreglan leitar enn árásarmannsins.

Geir Jón sagði í samtali við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni að svo virtist vera sem að árásarmaðurinn hefði komið aftan að stelpunni með grjót í hönd og slegið því í stúlkuna. Hún var flutt á slysadeild en ekki hefur fengist upplýst hvort áverkar hennar séu alvarlegir.

Geir Jón segir mikilvægt að lögreglan finni árásarmanninn. „Svona menn geta ekki gengið lausir lengi. Þeir eru hættulegir umhverfi sínu, menn sem láta sér detta slíkt í hug," segir Geir Jón.

Samkvæmt lýsingu lögreglunnar er árásarmaðurinn talinn vera 170-175 sentimetrar á hæð, skolhærður og klæddur í svarta yfirhöfn og hvíta skó en rauður litur kann einnig að vera á skónum. Líklegt þykir að árásarmaðurinn sé á aldrinum 20-25 ára og íslenskur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×