Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var víst boðaður á fund í samráðshópi ráðherra og stjórnarandstöðunnar um skuldavanda heimilanna í morgun.
Þetta segir Hrannar Björn Arnarsson, aðstoðarmaður forsætisráðherra. Hann hefur sent fréttastofu afrit af fundarboðinu þessu til staðfestningar.
Bjarni sagði í morgun að hann hefði ekkert fundarboð fengið og var hann því ekki á fundinum.
Þangað mættu hins vegar fulltrúar annarra flokka stjórnarandstöðunnar, þeir Gunnar Bragi Sveinsson og Þór Saari. Þeir staðfestu báðir að hafa fengið formlegt fundarboð með tölvupósti og samkvæmt því afriti sem fréttastofa hefur undir höndum var Bjarni einnig boðaður.
