Innlent

Jón Gnarr hvetur konur til að leggja niður vinnu

Jón Gnarr hvetur konur sem starfa hjá Reykjavíkurborg að láta í sér heyra á kvennafrídaginn
Jón Gnarr hvetur konur sem starfa hjá Reykjavíkurborg að láta í sér heyra á kvennafrídaginn Mynd: GVA
Jón Gnarr, borgarstjóri Reykjavíkur, hvetur konur sem starfa hjá Reykjavíkurborg til að taka áskorun kvennahreyfingarinnar og leggja niður störf klukkan 14.25 á mándag.

Í bréfi sem borgarstjóri hefur sent öllu starfsfólki borgarinnar segir að stjórnendur hafi verið sérstaklega hvattir til að gera sem flestum konum kleift að taka þátt í kvennagöngu sem farin verður þennan dag í tilefni af kvennafrídeginum. Þannig verða foreldrar beðnir um að sækja börnin sín fyrr þennan dag.

„Konur hafa frá örófi alda búið við mismunun hvarvetna í heiminum. Misréttið hefur meðal annars endurspeglast í virðingarleysi, lægri launum og kynbundu ofbeldi gagnvart konum á öllum aldri og í öllum þjóðfélagsstigum. Íslenskar konur hlutu heimsathygli þegar þær lögðu niður störf sín til að vekja athygli á mismunun í garð kvenna þann 24. október árið 1975. Nú hvetja sameinaðar íslenskar kvennahreyfingar undir yfirheitinu „Skotturnar" íslenskar konur til að endurtaka leikinn til að vekja athygli á baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Gengið verður frá Hallgrímskirkju niður að Arnarhól kl. 15 næstkomandi mánudag, 25. október," segir í bréfi borgarstjórans sem fréttastofu barst afrit af.

„Í baráttunni við kynbundið ofbeldi er mjög mikilvægt að raddir þeirra fjölmörgu kvenna sem hjá Reykjavíkurborg starfa, heyrist og sjáist með þessum táknræna hætti," segir þar ennfremur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×