Innlent

Klippt á borðann á Lyngdalsheiði

Gamli Gjábakkavegur hefur oft verið eins og hafsjór yfir að líta á Laugarvatnsvöllum að vetrarlagi.
Gamli Gjábakkavegur hefur oft verið eins og hafsjór yfir að líta á Laugarvatnsvöllum að vetrarlagi.

Nýi vegurinn um Lyngdalsheiði verður formlega opnaður fyrir umferð við hátíðlega athöfn á föstudag með því að Ögmundur Jónasson samgönguráðherra ásamt Hreini Haraldssyni vegamálastjóra klippir á borða. Athöfnin fer fram austast á kaflanum, nálægt Laugarvatni, og hefst klukkan 15:30.

Lyngdalsheiðin tengir Þingvelli við Gullfoss og Geysi og er þannig ein helsta ferðamannaleið landsins en hefur fram til þessa verið lokuð yfir vetrartímann. Þessi nýi fimmtán kílómetra vegur mun tryggja heilsárssamgöngur þessa stystu leið milli Reykjavíkur og Laugarvatns. Hann mun þannig koma íbúum og sumarhúsagestum í uppsveitum Árnessýslu til góða enda fá margir þarna stystu leiðina til Reykjavíkur.

Átta ár eru liðin frá því undirbúningur vegarlagningarinnar hófst fyrir alvöru. Ferlið tafðist hins vegar, einkum vegna kærumála frá andstæðingum vegarins, sem töldu hann valda náttúruspjöllum og menga Þingvallavatn.

Klæðning hf. hóf verkið fyrir rúmum tveimur árum en varð frá að hverfa þegar Lýsing hirti af þeim tækjakostinn. A.Þ.-vélaleiga tók þá við verkinu og lauk því.

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×