Innlent

Fréttir vikunnar: Beinskeyttur biskup og bensínstöð bjargað

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Biskup Íslands talaði skýrt í predikun sinni í morgun. Mynd/ Hari.
Biskup Íslands talaði skýrt í predikun sinni í morgun. Mynd/ Hari.

Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari sagði við Visi á mánudaginn að það væri mikið áhyggjuefni hvernig komið væri fyrir umræðu um kynferðisbrot. „Ég tel það háalvarlegt mál að því sé haldið fram á opinberum vettvangi að embættismenn vinni markvisst gegn framgangi kynferðisbrota og að brotaþolum kynferðisbrota „sé ekki trúað" í réttarkerfinu sem sé ein „svikamylla"," sagði Valtýr þá.

Á þriðjudaginn sögðum við frá því að Samtök tölvuleikjaiðnaðarins á Íslandi mótmæla harðalega hugmyndum Sambands tónskálda og eigenda flutningsréttar um sérstakt gjald á netnotkun. Segja samtökin að með þessu sé beinlínis vegið að hagsmunum annara skapandi greina, svo sem tölvuleikjaframleiðenda, enda ljóst að umrætt gjald kæmi bæði niður á fyrirtækjunum sjálfum og viðskiptavinum þeirra.

Sama dag sögðum við frá því að allt að átján íslenskir einstaklingar með einhverfu verða þjálfaðir til starfa við hugbúnaðarprófanir á Íslandi á hverju ári hér eftir. Það eru Sérfræðingarnir, sem er sjálfseignastofnun nátengd Umsjónarfélagi einhverfra, sem sér um verkefnið.

Síðdegis á miðvikudag sögðum við frá því að ung íslensk hjón létust í morgun í bílslysi nálægt bænum Mugla í suðvesturhluta Tyrklands. Sjö mánaða gamalt barn hjónanna var með í bifreiðinni.

Á fimmtudaginn sögðum við frá því að Skeljungur hefði hætt við að loka bensínstöðinni í Skógarhlíð, skammt fyrir ofan slökkvistöðina. Til stóð að loka henni nú um helgina en viðskiptavinir söfnuðu undirskriftum til að koma í veg fyrir það. Bensínstöðin og starfsmenn hennar njóta mikilla vinsælda meðal viðskiptavina, ekki síst þeirra sem eru í hópi leigubílstjóra.

Á föstudaginn sögðum við frá því að Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, lýsti sig saklausan við þingfestingu ákæru á hendur honum. Baldur er ákærður fyrir meint innherjasvik og brot í opinberu starfi.

Daníel Ernir, litli sex mánaða gamli drengurinn sem komst lífs af úr bílslysi í Tyrklandi á miðvikudaginn, kom heim til Íslands í gær.

Við sögðum líka frá því í gær að Sigrún Pálína Ingvarsdóttir fékk veitta Jafnréttisviðurkenningu Stígamóta fyrir árið 2010. Í rökstuðningi með viðurkenningunni segir að Sigrún Pálína hafi sýnt ótrúlega þrautseigju og hugrekki með því að segja sögu sína, þrátt fyrir ítrekaðar og öflugar þöggunartilraunir.

Í dag sögðum við svo frá beinskeyttri gagnrýni Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands, á tillögu mannréttindaráðs Reykjavíkur um að meina fulltrúum þjóðkirkjunnar samskipti við grunnskólabörn á skólatíma. Karl sagði í predikun í Hallgrímskirkju í morgun að kerfisbundið væri unnið að því að fela þá staðreynd að íslensk þjóðmenning væri byggð á kristindómnum.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×