Íslenski boltinn

Tryggvi: Bara úrslitaleikir eftir

Ari Erlingsson skrifar

Tryggvi Guðmundsson, framherji Eyjamanna, var kampakátur í leikslok í kvöld og sagðist ánægður með stemminguna sem hefur verið að myndast í Vestmannaeyjum auk þess sem hann blótaði því að mótið hafi verið lengt í 22 leiki frá því sem áður var.

„Eigum við ekki að kalla þetta svona týpískan vinnusigur. Við fáum náttúrulega þessa þreföldu refsingu. Það er víti, rautt spjald og mark. Við börðum okkur bara saman og sem betur fer nýttum við okkar færi en ekki þeir.  Við nýttum okkur það að Fylkismenn voru eiginlega bara fullrólegir í kvöld fyrir utan kannski Ásgeir Börk á miðjunni sem er hálfgerð Duracell-kanína þarna á miðjunni.

Nú taka bara við úrslitaleikir það sem eftir er. Við höldum bara ótrauðir áfram og við finnum meðbyrinn enda æðislega flott stemming sem er að myndast bæði á útileikjum sem og heimaleikjum.

Allt Eyjasamfélagið stendur á bakvið okkur. Þetta er kannski svipuð stemmning og árið 1997 þó við höfum verið líklegri þá heldur en núna. Í það minnsta óraði ekki nokkrum manni fyrir þessum árangri í vor og við erum að koma ölllum á óvart með því að vera efstir í deildinni eftir 18 umferðir. Helvítis, það er verst að einhver þurfti að breyta þessu í 22 leikja mót. Annars værum við orðnir meistarar," sagði Tryggvi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×