Innlent

Nýting til 100 til 300 ára

Reykjanesvirkjun Nýjar mælingar gefa til kynna að hámarksafköst á Reykjanesi sé 81 megavatt. fréttablaðið/GVA
Reykjanesvirkjun Nýjar mælingar gefa til kynna að hámarksafköst á Reykjanesi sé 81 megavatt. fréttablaðið/GVA
Við mat á sjálfbærri nýtingu jarðhitasvæða er gengið út frá nýtingu til 100 til 300 ára.

„Sjálfbær nýting gæti einnig falist í að nýta kerfin til skiptis til 50 ára og hvíla þau síðan meðan önnur eru tekin í notkun,“ segir í nýrri skýrslu Orkustofnunar um stærð og vinnslugetu háhitasvæða á landinu.

Nýjar mælingar, sem birtar eru í þeirri skýrslu, gefa til kynna að hámarksafköst jarðhitasvæðisins á Reykjanesi sé 81 megavatt miðað við 50 ára vinnslutíma, lágmarksafköst 27 megavatt en miðgildi vinnslugetu 46 megavött.

Þegar eru framleidd 100 megavött úr þessu svæði og áform eru um að auka vinnsluna um allt að 85 megavött til viðbótar. Þegar virkjanaleyfi var gefið út bentu viðnámsmælingar frá 1985 til að svæðið gæti staðið undir 26 megavatta framleiðslu í 50 ár.

Í skýrslu Orkustofnunar segir að birtar séu upplýsingar um vinnslutíma til 50 ára. „Sjálfbær nýting á jarðhita gengur hins vegar út frá nýtingu til 100 til 300 ára og til að fá mat á afkastagetu svæðanna þarf aðeins að deila með 2 upp í niðurstöðurnar fyrir 100 ára nýtingartíma og sex fyrir 300 ára nýtingartíma,“ segir þar.

Samkvæmt því gæti svæðið á Reykjanesi staðið undir 40,5 megavatta framleiðslu í 100 ár en 14,5 megavatta framleiðslu í 300 ár.

- pg



Fleiri fréttir

Sjá meira


×