Innlent

Vill harðari refsingu fyrir nauðgun

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Atli Gíslason hefur áður lagt frumvarpið fram en það var ekki afgreitt í þinginu þá. Mynd/ Anton.
Atli Gíslason hefur áður lagt frumvarpið fram en það var ekki afgreitt í þinginu þá. Mynd/ Anton.
Gert er ráð fyrir að Jórunn Einarsdóttir varaþingmaður mæli í dag fyrir frumvarpi sínu um þyngri lágmarksrefsingu fyrir nauðgun.

Samkvæmt frumvarpinu er gert ráð fyrir að lágmarksrefsing fyrir slíkt brot verði tveggja ára fangelsi en lágmarksrefsing er í dag eitt ár. Hámarksrefsing verður áfram hin sama, eða 16 ára fangelsi. Frumvarpið var áður lagt fram af Atla Gíslasyni, þingmanni Vinstri hreyfingarinnar - Græns framboðs, en var ekki afgreitt af þinginu. Jórunn Einarsdóttir situr á þingi í fjarveru Atla.

Í greinagerð með frumvarpinu kemur fram að samkvæmt alþjóðlegum sjúkdómsgreiningaskrám sé áfallið í kjölfar nauðgunar líkt því sem einstaklingar verði fyrir við stórfelldar náttúruhamfarir, stríðsátök og stórslys. Það sé sameiginlegt með þessum aðstæðum að þolandinn hafi það ekki í hendi sér hvort hann lifi eða deyr. Þessum áföllum fylgi oft mjög sterk viðbrögð sem kallast áfallastreituröskun. Almennt getur slík lífsreynsla leitt til viðvarandi ástands.

Auk Jórunnar standa fjórir aðrir þingmenn Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og VG að baki frumvarpinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×