Enski boltinn

Carragher ekki búinn að gefa upp vonina um Meistaradeildarsæti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rafael Benitez ræðir við Jamie Carragher í leiknum í kvöld.
Rafael Benitez ræðir við Jamie Carragher í leiknum í kvöld. Nordic Photos / Getty Images

Jamie Carragher, leikmaður Liverpool, sagði eftir sigur sinna manna á West Ham í kvöld að liðið ætti enn möguleika á að tryggja sér þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð.

Fjögur efstu lið ensku úrvalsdeildarinnar öðlast þátttökurétt í Meistaradeildinni en Liverpool er nú í sjötta sæti, fimm stigum á eftir Tottenham sem er í fjórða sæti og á þar að auki leik til góða.

„Það er ekki útilokað," sagði Carragher. „Við vitum að það verður þó erfitt. Öðrum liðum hefur gengið vel og Tottenham hefur átt sérstaklega góðu gengi að fagna. Liðið á þó erfiðan leik gegn Manchester United fyrir höndum og vonandi fara þeir að misstíga sig."

Sigur Liverpool í kvöld var öruggur en Carragher sagði leikinn hafa ekki verið léttan. „Það er alltaf erfitt að spila gegn West Ham, sérstaklega þegar þeir eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni."

Liverpool mætir Atletico Madrid í undanúrslitum Evrópudeildarinnar á fimmtudaginn en leikurinn fer fram í Madríd. Það er þó lítið flogið í Evrópu þessa dagana vegna öskunnar sem borist hefur til meginlandsins frá eldgosinu í Eyjafjallajökli.

Liverpool þarf því líklega að fara með rútu til Madrídar en Carragher segir að það eigi ekki að hafa áhrif á frammistöðu liðsins á fimmtudaginn.

„Svona er þetta bara og ég held að þetta muni engu máli skipta."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×