Innlent

Lúpínu eingöngu beitt á takmörkuðu svæði

Mynd/Valgarður Gíslason

Stöðva á útbreiðslu lúpínu og skógarkerfils, samkvæmt ákvörðun umhverfisráðherra. Forstjóri Náttúrufræðistofnunar og landgræðslustjóri kynntu umhverfisráðherra tillögur sínar fyrir helgi.

Líklega er engin jurt á Íslandi jafn umdeild alaskalúpínan er.

Kostir hennar eru þeir að hún getur komist af í gróðurvana auðnum og örfoka landi sem aðrar plöntur eiga sér ekki lífsvon. Hún hefur því þótt fyrirtaks landgræðsluplanta. Kraftur hennar er þó hennar helsti ókostur. Hún getur þótt ágeng í náttúrunni og þannig spillt fuglalífi og haft neikvæð áhrif á tegundafjölbreytni flóru og fánu.

Skógarkerfill hefur hins vegar ekkert landgræðslugildi en mynda þéttar breiður sem skyggja á og hindra vöxt annarra plantna.

Á fundi í umhverfisráðuneytinu fyrir helgi voru kynntar þrjár aðferðir til að stemma stigu við tegundunum það er sláttur, beit og eitrun með efninu Round-up en síðast nefnda aðferðin þykir fýsilegust.

„Þessi aðferð að nota svokallað Round-up sem mjög margir þekkja er talin skaðlaus aðferð," segir Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri, aðspurður hvort ekki sé varasamt að eitra í náttúru Íslands.  

Þá er minnt á að það er síður en svo stefnt að algjörri útrýmingu lúpínu þótt að vinna eigi að upprætingu hennar á ýmsum svæðum og koma í veg fyrir frekari útbreiðslu hennar.

„Þetta er öflugasta landgreiðsluplantan sem við eigum. Það er lagt til að hún verði notuð áfram en það verður haldið utan um það og henni verður eingöngu beitt á mjög takmörkuðu svæði,“ segir Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×