Leikur Charlton og Leeds í ensku C-deildinni verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 6 nú um helgina.
Um gríðarlega mikilvægan leik í toppbaráttu deildarinnar er að ræða. Með sigri gæti Leeds tryggt sér sæti í ensku B-deildinni en þarf þá að treysta á að Millwall tapi fyrir Carlisle á útivelli á sama tíma.
Næstsíðasta umferð deildarinnar fer fram á morgun og hefjast allir leikirnir klukkan 14.00.
Verkefni Leeds um helgina verður þó erfitt enda Charlton í fimmta sæti deildarinnar. Leeds mætir svo Bristol Rovers á heimavelli í lokaumferðinni um þarnæstu helgi.
Norwich er þegar búið að tryggja sér sigur í ensku C-deildinni og Leeds, Millwall, Swindon, Charlton og Huddersfield öll örugg með sæti í umspilinu. Það er aðeins spurning um hvert þessara fimm liða fer beint upp með Norwich en þar stendur Leeds best að vígi, eins og taflan lítur út nú.
Staða efstu liða:
1. Norwich 92 stig (+41 í markatölu)
2. Leeds 83 (+33)
3. Millwall 82 (+33)
4. Swindon 79 (+16)
5. Charlton 78 (+20)
6. Huddersfield 77 (+26)