Innlent

Ræddi við erlendu ráðherrana í gær

Bandaríski lögfræðingurinn Lee Bucheit mætti á fund með forsvarsmönnum stjórnar og stjórnarandstöðu. Fréttablaðið/GVA
Bandaríski lögfræðingurinn Lee Bucheit mætti á fund með forsvarsmönnum stjórnar og stjórnarandstöðu. Fréttablaðið/GVA
„Ég tel við séum í aðalatriðum búin að ná utan um þetta af okkar hálfu,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um fund forsvarsmanna stjórnar og stjórnarandstöðu um Icesave-málið.

Í framhaldi af fundinum kveðst Steingrímur hafa átt símtöl við bæði Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, og Lord Paul Myners, bankamálaráðherra Bretlands. „Ég upplýsti þá um stöðuna og við ræddum um framhaldið,“ segir Steingrímur sem ekki vill upplýsa hvað erlendu ráðherrarnir sögðu. „Við skulum vona að það geti orðið framhald á en það kemur í ljós á næstu dögum. Eins og ég segi þá áttum við ráðherrarnir símtöl í dag og það er væntanlega til marks um að það er hreyfing á málunum.“

Steingrímur vill ekki upplýsa útgangspunkt Íslendinga í væntanlegum viðræðum við Breta og Hollendinga. „Markmiðið er að ná árangri og velja sér þær aðferðir sem eru líklegastar til að duga í þeim efnum,“ segir hann.

Don Johnston, fyrrverandi ráðherra í Kanada og fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá OECD, og bandaríski lögfræðingurinn Lee Bucheit hafa verið íslenskum stjórnvöldum til ráðgjafar að undanförnu. „Ég geri ráð fyrir því að við munum njóta þeirra krafta,“ svarar fjármálaráðherra um hlutverk þessara tveggja manna í komandi viðræðum við Breta og Hollendinga. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×