Innlent

Reykjavíkurflugvelli lokað í sparnaðarskyni

Reykjavíkurflugvöllur er lokaður og allt flug til og frá vellinum er bannað í dag og er þetta gert í sparnaðarskyni. Flugvöllurinn verður þó opnaður í neyðartilvikum.

Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi Flugstoða, segir að Flugstoðir hafi þurft að finna leiðir til að spara þegar Samgönguráðuneytið ákvað að skera niður framlög til fyrirtækisins á síðasta ári. Því hafi verið ákveðið að minnka þjónustustig á flugvöllum og ein aðgerð í þeirri skerðingu var að loka Reykjavíkuflugvelli. Hún segir að í neyðartilfellum verði flugvöllurinn hins vegar opnaður, eins og til að greiða fyrir sjúkra- og neyðarflugi. Einnig sé hægt að opna flugvöllinn gegn gjaldi og þannig geti sterkefnaðir áhugaflugmenn nýtt sér það vilji þeir fljúga í dag.

Ekkert áætlanaflug er innanlands í dag hjá Flugfélagi Íslands en að sögn Árna Gunnarssonar, framkvæmdastjóra flugfélagsins, eru þrír dagar á ári sem ekki er flogið, en um er að ræða páskadag, jóladag og nýársdag. Að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur hafði sú staðreynd nokkra þýðingu þegar tekin var ákvörðun um að loka Reykjavíkurflugvelli, enda sé tekið mið af flugumferð þegar ákvarðanir um lokanir eru teknar. Hún segir að þetta sé engin óskastaða, vissulega væri heppilegra ef flugvöllurinn væri opinn, en lokunin sé hins vegar nauðsynleg sparnaðaraðgerð.

Þrjá flugumferðarstjóra þarf til að halda uppi flugstjórnarþjónustu á Reykjavíkurflugvelli, en launakostnaður þeirra er meðal þess sem sparast með lokun flugvallarins í dag. Flugmenn í netheimum hafa lýst yfir óánægju með lokun flugvallarins, en skiptar skoðanir eru um hvort þörf sé á þremur flugumferðarstjórum á vakt. Hjördís segir að slíkt sé í samræmi við þær reglur sem gildi um flugumferð á Reykjavíkurflugvelli.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×