Íslenski boltinn

Almarr: Okkar slakasti leikur í sumar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Almarr Ormarsson.
Almarr Ormarsson. Mynd/Arnþór
„Þetta var okkar slakasti leikur í sumar. Við gátum mjög lítið," sagði Almarr Ormarsson, leikmaður Fram, eftir tapleikinn gegn FH í kvöld.

FH vann 4-1 sigur á Fram en þetta var aðeins annað tap síðarnefnda liðsins á tímabilinu. Hinn kom gegn KR í byrjun júní.

„Við áttum ekkert skilið úr þessum leik," sagði Almarr. „FH-ingar voru góðir í dag en ég held að það hafi verið vegna þess að við leyfðum þeim það. FH er ekki með betra lið en Fram. En þeir voru miklu betri í dag."

Almarr var settur á bekkinn fyrir leikinn í kvöld og segir að það hafi ekki komið sér á óvart.

„Mér fannst ég eiga það skilið enda ekki verið upp á mitt besta undanfarið. En ég vissi að ef ég fengi sénsinn myndi ég gera allt til að sýna að ég eigi heima í byrjunarliðinu. Það er vonandi að það hafi tekist," sagði hann en Almarr skoraði eina mark Fram í leiknum.

Hann vill ekki meina að Fram sé í lægð. „Við vorum bara slakir í dag en við höfum verið að spila ágætlega að undanförnu - bara ekki náð að klára okkar leiki nægilega vel. En ég get ekki útskýrt hvað gerðist í dag - þetta var óvenjulega lélegt hjá okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×