Íslenski boltinn

Umfjöllun: Grindvíkingar klaufar

Stefán Árni Pálsson skrifar

Grindvíkingar náðu ekki að komast upp fyrir Selfyssinga  og úr fallsætinu eftir ,1-1, jafntefli í botnslagnum suður með sjó í kvöld.  Grétar Ólafur Hjartarson skoraði mark Grindvíkinga en Auðun Helgason skoraði sjálfsmark og því var jafntefli niðurstaðan.

Fyrir leiki kvöldsins í  Pepsi-deildinni  voru Grindvíkingar í ellefta sæti með 6 stig, en Selfyssingar með einu stigi meira í því tíunda.  Með sigri gátu heimamenn komist upp fyrir Selfyssinga og í leiðinni úr fallsæti í fyrsta skipti á þessu tímabili.  Það var því sannkallaður sex stiga leikur suður með sjó í kvöld.

Leikurinn hófst með miklum látum og það var strax ljóst frá fyrstu mínútunum að Grindvíkingar ætluðu að selja sig dýrt. Heimamenn sóttu án afláts í fyrri hálfleiknum og  strax á 10. mínútu komst Gilles Mbang Ondo einn í gegn um vörn Selfyssinga og náði fínu skoti að markinu en Jóhann Ólafur varði vel fyrir gestina.

Fjórum mínútum síðar komst Jósef Kristinn Jósefsson einn í gegn um vörn Selfyssinga ,eftir frábæra stungusendingu frá Gilles Mbang Ondo,  og átti gott skot að markinu en aftur varði Jóhann Ólafur frábærlega. Það var síðan á 22. mínútu leiksins sem heimamenn náðu að brjóta ísinn , en þá skoraði Grétar Ólafur Hjartarson virkilega flott mark eftir að hafa sloppið einn í gegn um vörn Selfyssinga.

Eftir markið héldu Grindvíkingar  áfram að pressa á Selfyssinga og í raun ótrúlegt að staðan hafi bara verið 1-0 í hálfleik.

Í síðari hálfleik komu gestirnir tvíefldir til baka  og nýttu  sér að spila með vindinum. Hægt og rólega juku Selfyssingar pressuna að marki Grindvíkinga og á 49. mínútu var mark dæmt af Selfyssingum. 

Gestirnir  fengu aukaspyrnu sem Guðmundur Þórarinsson tók af 35 metra færi. Boltinn endaði í slánni og hrökk út til Davíðs Birgissonar sem renndi honum í netið. Dómarinn dæmdi aftur á móti markið af vegna rangstöðu. 

Nokkrum mínútum síðar náðu Selfyssingar að jafna metin en þá varð Auðun Helgason fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Þar var aftur á ferðinni Guðmundur Þórarinsson en hann tók frábæra hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Jóni Daða Böðvarssyni sem skallaði boltann í slánna og niður í jörðina.

Auðun Helgason reyndi því næst að hreinsa boltann frá með þeim afleiðingum að hann skoraði sjálfsmark. 

Bæði liðin voru líklega í restina að ná inn sigurmarkinu en það hafðist ekki og því lyktaði leiknum með ,1-1, jafntefli.

Grindavík - Selfoss 1-1

1-0 Grétar Ólafur Hjartarson (22.)

1-1 Auðun Helgason, sjm.  (57.)

Grindavíkurvöllur - Áhorfendur: 778

Dómari: Erlendur Eiríksson 6

Skot (á mark): 11-11 (5-2)

Varin skot: Rúnar 1– Jóhann 5

Horn: 3-6       

Aukaspyrnur fengnar  9-9

Rangstöður  4-3

Grindavík 4-4-2

Rúnar Dór Daníelsson 6

Loic Mbang Ondo 6

Auðun Helgason 5

Orri Freyr Hjaltalín 6

Jósef Kristinn Jósefsson 7

Scott Ramsey 6

(89. Alexander Magnússon - )

Matthías Örn Friðriksson 5

Jóhann Helgason 7

Páll Guðmundsson 5

(61. Óli Baldur Bjarnason 6 )

Grétar Ólafur Hjartarson 7

Gilles Daniel Mbang Ondo 7

Selfoss (4-4-2):

Jóhann Ólafur Sigurðsson 8 – maður leiksins

Stefán Ragnar Guðlaugsson 6

Agnar Bragi Magnússon 6

Kjartan Sigurðsson 5

Guðmundur Þórarinsson 7

Ingólfur Þórarinsson 5

(72. Arilíus Marteinsson -)

Einar Ottó Antonsson 6

 Jón Guðbrandsson  6

(83. Andri Freyr Björnsson - )

Jón Daði Böðvarsson 7

Daði Birgisson  6

Sævar Þór Gíslason 6

Smelltu hér til að opna Boltavaktina og lesa lýsingu leiksins: Grindavík - Selfoss.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×