Íslenski boltinn

Gunnlaugur: Nokkuð gott hjá okkur

Elvar Geir Magnússon skrifar
Gunnlaugur.
Gunnlaugur.

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Vals, var ánægður með frammistöðu síns liðs gegn FH í kvöld. Hann var þó svekktur yfir því að hafa ekki náð öllum stigunum.

„Við lögðum upp með það að reyna að vinna þennan leik og að sjálfsögðu er fúlt að hafa ekki náð því þrátt fyrir að komast tvisvar yfir. Ég er fyrst og fremst ánægður með frammistöðu leikmanna, þeir lögðu sig alla í verkefnið," sagði Gunnlaugur.

Arnar Sveinn Geirsson stóð sig virkilega vel í Valsliðinu og skoraði hann síðara mark liðsins. „Hann stóð sig frábærlega í þessum leik og sýndi hvers hann er megnugur. Hann hefur gríðarlegan hraða og styrk og þegar hann notar það er hann erfiður viðureignar," sagði Gunnlaugur.

„Liðið sem heild stóð sig vel og erfitt að taka mann út. Liðsheildin virkaði og það þarf á móti FH."

Varðandi vítaspyrnudóminn vildi Gunnlaugur lítið tjá sig. „Ég sá þetta ekki vel og verð að dæma þetta þegar ég skoða þetta í sjónvarpinu. Þeir fengu víti og nýttu það, niðurstaðan var 2-2 og ég held að það sé bara nokkuð gott hjá okkur."

Telur Gunnlaugur að Valsmenn geti verið að berjast í toppbaráttunni í sumar? „Þetta er bara fyrsti leikur af 22 en við opnum mótið verulega sterkt. Það er allt hægt í stöðunni en þetta veltur bara á okkur. Ef byrjunin verður góð skulum við sjá hvort við höfum burði til að horfa eitthvað lengra upp."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×