Innlent

Fundað gegn fátækt

Í dag var haldinn fundur á Grand Hótel þar sem fólk úr ýmsum hópum samfélagsins ræddi um fátækt og félagslega einangrun og hvaða leiðir séu færar til að vinna gegn slíkri stöðu. Fundurinn, sem var með þjóðfundarsniði, var haldinn í tilefni af Evrópuári gegn fátækt og félagslegri einangrun og er skipulagður af stýrihópi á vegum félags- og tryggingamála-ráðuneytisins.

Eitt af meginmarkmiðum Evrópuársins á Íslandi er að raddir þeirra einstaklinga sem búa við fátækt og félagslega einangrun fái að heyrast. „Þess vegna ákváðum við að halda fund með þjóðfundarsniði þar sem fólk úr hinum ýmsu hópum samfélagsins sest niður og ræðir á jafnræðisgrundvelli um fátækt, óörugga lífsafkomu og félagslega einangrun og hvaða leiðir séu færar til þess að vinna gegn slíkri stöðu," segir Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra.

Hann segir mikilvægt að koma á öflugri samræðum og skoðanaskiptum í samfélaginu um þessi mál og tryggja að allar raddir heyrist. „Það er von okkar að fundurinn skili raunhæfum hugmyndum og ábendingum um leiðir sem geti reynst gagnlegar í baráttunni gegn fátækt og félagslegri einangrun á Íslandi."

Yfir 80 manns tóku þátt í fundinum sem gekk vonum framar að því er fram kemur í tilkynningu og komu margar áhugaverðar tillögur þar fram. „Nú verður unnið úr tillögum og áherslum fundarins og stefnt á að kynna þær sem fyrst og koma á framfæri til réttra aðila," segir að lokum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×