Innlent

Fleiri taka enskupróf eftir bankahrunið

Hægt er að þreyta TOEFL prófið á tölvu eða svara á gamla mátann með blað og penna að vopni.
Hægt er að þreyta TOEFL prófið á tölvu eða svara á gamla mátann með blað og penna að vopni.
Um 260 hafa tekið TOFEL enskupróf það sem af er ári en prófið er skilyrði fyrir inngöngu í margra erlenda skóla. Eftir bankahrunið meira en þrefaldaðist fjöldi þeirra sem tóku prófið.

Hægt er að þreyta TOEFL prófið á tölvu hjá Tölvuskólanum eða svara á gamla mátann, með blað og penna að vopni hjá Háskóla Íslands. Langflestir kjósa að svara prófinu á tölvu.

Guðmundur Pálmason, framkvæmdastjóri Tölvuskólans, segir að árið 2008 hafi 167 tekið prófið hjá skólanum. En það ár var reyndar gert stutt hlé á þjónustusamningum. Árið 2009 tóku 532 prófið og það sem af er ári nemur fjöldinn 260.

Guðmundur telur að eftir bankahrunið hafi margir ákveðið að söðla um og fara í nám erlendis, en stór hluti próftaka voru ekki nýútskrifaðir stúdentar. „Þetta var fólk sem að hluta til missti vinnuna og ákvað að skella sér í framhaldsnám."

En hvað með árið í ár? „Ég held að það verði ekki aukning frá árinu í fyrra. Það heldur örugglega í horfinu eða verður aðeins minna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×