Enski boltinn

Leikmenn Tottenham fögnuðu marki Scholes

Elvar Geir Magnússon skrifar
Leikmenn Tottenham fagna seinna marki sínu í dag.
Leikmenn Tottenham fagna seinna marki sínu í dag.

Eftir að hafa tapað fyrir Portsmouth í bikarnum hefur Tottenham náð tveimur sterkum sigurleikjum í vikunni. Liðið hefur svo sannarlega haft áhrif á titilbaráttu deildarinnar með því að vinna bæði Arsenal og Chelsea.

„Við þjöppuðum okkur saman eftir tapið í bikarnum og höfum náð tveimur frábærum leikjum. Ákveðnin og vinnusemin var hreint mögnuð í dag," sagði Michael Dawson, varnarmaður Tottenham.

Sigur Manchester United á grönnum sínum í City fyrr um daginn gerði það að verkum að Tottenham gat með sigri komist upp í hið eftirsótta fjórða sæti deildarinnar. Það tókst, Tottenham vann 2-1.

„Við vorum að borða saman og fylgjast með leiknum í Manchester. Þegar Paul Scholes skoraði voru smá fagnaðarlæti. Það er spennandi barátta framundan, það eru mikilvægir leikir á næsta leyti," sagði Dawson.

„Liðið hefur verið frábært," sagði Harry Redknapp, knattspyrnustjóri Tottenham. „Það er magnað að koma svona til baka eftir vonbrigðin á sunnudaginn. Við vorum jafnvel betri í dag en gegn Arsenal, á fyrsta hálftímanum stjórnuðum við leiknum algjörlega."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×