Innlent

Berst gegn tilraunum til ritskoðunar vegna ofbeldisfullrar leiksýningar

Þorleifur Arnarsson að ræða við einn leikara í leiksýningu sem hann setti upp. Mynd/ Midjan.is
Þorleifur Arnarsson að ræða við einn leikara í leiksýningu sem hann setti upp. Mynd/ Midjan.is
"Þetta er sýning um ofbeldi og vald," segir Þorleifur Örn Arnarsson leiksstjóri sem setur um þessar mundir upp leikritið A Clockwork Orange í Borgarleikhúsinu í Schwerin í Þýskalandi. Verkið hefur nú þegar vakið upp sterk viðbrögð, leikkona kúgaðist yfir ofbeldinu á æfingu og leikhússtjórinn boðaði komu sína til að bera ofbeldið eigin augum.

"Hann hafði áhyggjur af því að sýningin væri of gróf fyrir Borgarleikhúsið hérna í Schwerin en við sögðum á móti hvernig maður gæti sett upp verk eins og Clockwork Orange án þess að draga ofbeldið fram í sviðsljósið. Það fyndna er samt að mestar áhyggjur hafði hann af brunni sem er í laginu eins og typpi og svo mynd af berbrjósta konu á bakvegg í sviðsmyndinni. Skinhelgin er oft mikil hérna í Þýskalandi - það er í lagi að berja og nauðga á sviðinu en eitt typpi eða brjóst er yfir strikið."

Malcom McDowell túlkaði algjörlega geðtruflaðan ofbeldissegg í kvikmynd Stanley Kubricks, A Clockwork Orange.
Leikhússtjórinn hefur ekki tekið afstöðu gagnvart sýningunni eða hvort hann setji Þorleifi stólinn fyrir dyrnar með einhverskonar ritskoðun. Sjálfur segir Þorleifur að það komi ekki til greina að lúta ritskoðun sýningarinnar enda sé sagan upprunalega bæði ofbeldisfull og klámfengin, eins og þeir vita sem séð hafa kvikmyndina sem Stanley Kubrick leikstýrði á áttunda áratugnum.

Uppsetning Þorleifs er líka óvenjuleg fyrir þær sakir að með Þorleifi starfa tveir aðrir Íslendingar - Jósef Halldórsson býr til sviðsmynd og búninga og Símon Birgisson sér um tónlist verksins.

"Ætli það megi ekki kalla þetta ákveðna leikhúsútrás en Jósef sá um sviðsmyndina með mér í öðru verki hér í Schwerin á síðasta ári og ég og Símon höfum unnið að nokkrum uppfærslum saman."

A Clockwork Orange verður frumsýnt í Schwerin 11 febrúar og má eflaust búast við einhverjum viðbrögðum.

"Maður lætur svoleiðis samt ekki stoppa sig. Maður býr til leikhús til að spyrja spurninga, ögra og kryfja samfélag sitt. Verk eins og A Clockwork Orange hefur alltaf verið umdeilt og mun vera það áfram, því þrátt fyrir ofbeldið veitir það innsýn inn í samfélag skinhelgi og yfirborðsmennsku".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×