Enski boltinn

Wenger: Takið vel á móti Adebayor

Elvar Geir Magnússon skrifar

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur biðlað til stuðningsmanna liðsins um að láta Emmanuel Adebayor hjá Manchester City í friði þegar liðin mætast á morgun.

Adebayor er fyrrum leikmaður Arsenal og fagnaði marki gegn þeim í september með því að hlaupa yfir allan völlinn og fagna fyrir framan stuðningsmenn Arsenal.

„Stundum í hita leiksins gera menn hluti sem eru ekki réttur. Það er ekki bara Adebayor sem er að fara að mæta sínu gamla liði, líka Patrick Vieira og Kolo Touré. Við bjóðum þá alla velkomna," sagði Wenger..

„Við verðum að virða það sem þeir hafa gert fyrir okkur og við viljum að stuðningsmenn okkar geri það, sama hvað gerðist í fyrri leiknum. Það er mikilvægt að við séum með jákvætt andrúmsloft. Ég býst við að allir muni hegða sér vel."

Arsenal er ekki lengur með í titilbaráttunni eftir tapið gegn Wigan um síðustu helgi. „Við munum samt berjast allt til loka. Það er mikilvægt að við höldum áfram að leggja okkur fram því það getur allt gerst. Þar að auki eru lið fyrir aftan okkur sem sækja að okkur. Ekkert er öruggt," sagði Wenger.

Hann tjáði sig líka um þá yfirlýsingu Sir Alex Ferguson, stjóra Manchester United, sem er ekki á þeim buxunum að hætta. „Það sést á því hvernig hann hegðar sér og stýrir sínu liði að hungrið er til staðar. Svo lengi sem svo hann lifir þá verður hungrið í árangur til staðar," sagði Wenger.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×