Robinho skoraði seinna markið og lagði upp það fyrra í 2-0 sigri Brasilíu á írum í vináttulandsleik á Emirates-leikvanginum í London í kvöld. Brasilíumenn fóru ekki í gang fyrr en í seinni hálfleik eftir dapran fyrri hálfleik.
Fyrra mark Brasilíu kom á lokamínútu fyrri hálfleiks þegar Keith Andrews varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir fyrirgjöf frá Robinho.
Robinho skoraði síðan seinna markið á 76. mínútu leiksins eftir flott samspil við þá Kaka og Grafite.
Robinho er sem kunnugt er í láni hjá Santos í Brasilíu en hann telst enn vera leikmaður Manchester City þar sem spilaði fyrir áramót en þótti ekki sýna mikla takta. Hann hefur greinilega fengið nýtt líf við að komast heim til Brasilíu þar sem hann hefur byrjað vel með Santos.