Innlent

Um 40 fyrirtæki stofnuð í tengslum við Hugmyndahús

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra tók vefinn í notkun í dag. Mynd/ Vilhelm.
Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra tók vefinn í notkun í dag. Mynd/ Vilhelm.
Hugmyndahús háskólanna fagnar eins árs afmæli sínu um þessar mundir og tók af því tilefni nýjan vef í notkun í dag við hátíðlega athöfn í Grandagarði 2 í Reykjavík. Á því eina ári sem Hugmyndahúsið hefur starfað hafa um 40 fyrirtæki verið stofnuð í tengslum við það og tugir starfa hafa orðið til.

Hugmyndahús háskólanna er frumkvöðlasetur HR og LHÍ. Gildi hússins eru sköpun, samvinna og sjálfbærni. Tilgangurinn er að aðstoða skapandi fólk við að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Í húsinu eiga sprotafyrirtæki á sviði tækni, vísinda, lista og hönnunar að geta tekið sín fyrstu skref.

Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra tók vefinn formlega í notkun í dag og örstutt ávörp fluttu þau Ingibjörg Gréta Gísladóttir, framkvæmdastjóri Hugmyndahússins, Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík og Hjálmar Ragnarsson, rektor Listaháskóla Íslands, samkvæmt fréttatilkynningu frá Hugmyndahúsinu.

Tveir frumkvöðlar, þau Ragnheiður Eiríksdóttir, framkvæmdastjóri Knitting Iceland og Haukur Guðjónsson, framkvæmdastjóri Búngaló, sögðu síðan frá ferðalagi hugmynda sinna í gegnum húsið.

Nýja vefnum er ætlað að þjóna íbúum Hugmyndahússins, tengslaneti frumkvöðla almennt og öllu öðru skapandi fólki sem vill taka þátt í jákvæðri uppbyggingu og samfélagi hússins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×