Íslenski boltinn

3 tímar í fyrsta leik: Valsmenn hafa ekki skorað hjá FH í 363 mínútur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það hefur lítið gengið hjá sóknarmönnum Vals í síðustu leikjum á móti FH.
Það hefur lítið gengið hjá sóknarmönnum Vals í síðustu leikjum á móti FH. Mynd/Daníel
Valur og FH leika í kvöld opnunarleikinn í Pepsi-deild karla þegar Íslandsmeistarar síðustu sex tímabila mætast á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda. Leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

FH-ingum hefur gengið vel á móti Valsmönnum síðustu tvö sumur og hafa náð í öll tólf stigin í boði í innbyrðisleikjum liðanna á þeim tíma. FH-ingar eru ekki aðeins með fullt hús í þessum leikjum því þeir eru einnig með hreint mark í þessum fjórum leikjum og hafa skorað ellefu mörk í röð í leikjum liðanna.

Valsmenn hafa því ekki skorað í 363 mínútur í deildarleikjum á móti FH eða síðan að þeir nánast tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn 2007 með 2-0 sigri í Kaplakrika í Kaplakrika 23. september 2007. Helgi Sigurðsson skoraði þá annað mark Valsmanna á 87. mínútu leiksins.

Valsmenn skutu FH-inga af toppnum með þessum sigri fyrir tæpum þremur árum en FH-liðið hafði þá verið samfleytt í toppsætinu í 60 umferðir og 38 mánuði og það þrátt fyrir að Valsmenn hefði unnið 4-1 sigur á þeim í fyrri leiknum. Valsmenn hafa ekki náð stigi á móti FH síðan þá og Hafnfirðingar hafa fagnað tveimur Íslandsmeistaratitlum í röð.

FH-markverðirnir Daði Lárusson og Gunnar Sigurðsson hafa skipt þessum fjórum leikjum með sér undanfarin tvö sumur og Daði var að auki í markinu þessar síðustu 3 mínútur í leiknum 2007.

Þeir Daði og Gunnar verða ekki í marki FH í kvöld heldur Gunnleifur Gunnleifsson sem hélt einmitt hreinu síðast þegar hann mætti Val - með HK sumarið 2008.

Síðustu sex innbyrðisleikir FH og Vals í úrvalsdeild karla:

20. spetember 2009 FH-Valur 2-0

2. júlí 2009 Valur-FH 0-5

13. september 2008 FH-Valur 3-0

24. júní 2008 Valur-FH 0-1

23. september 2007 FH-Valur 0-2

27. júní 2007 Valur-FH 4-1






Fleiri fréttir

Sjá meira


×