Innlent

Engin ríkisstjórn fyrr en eftir helgi

Höskuldur Þórhallsson.
Höskuldur Þórhallsson.

Þingflokksfundi Framsóknarflokksins sem haldinn var í Alþingishúsinu í dag er lokið. Þingmenn sem komið hafa út af fundinum hafa ekkert viljað tjá sig við fréttamenn og vísa þeir allir á formann sinn Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hann hefur haldið til fundar við þau Steingrím J. Sigfússon og Jóhönnu Sigurðardóttir.

Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins var svo fulltrúi þingflokks framsóknarmanna í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni rétt fyrir fimm. Þar sagði hann að ný ríkisstjórn líti væntanlega ekki dagsins ljós fyrr en eftir helgi. Hann sagði ennfremur að þegar tilkynnt var fyrr í dag um að ríkisstjórnin yrði mynduð á morgun hafi verið um einhliða yfirlýsingu að ræða sem hafi verið tekin án samráðs við Framsóknarflokkinn.

Fundur Sigmundar, Steingríms og Jóhönnu hófst á fimmta tímanum og stendur hann enn yfir. Fréttamenn á staðnum segja augljósa spennu í þinghúsinu. Þó að forystumenn vilji ekki viðurkenna hnökra telja menn víst að einhver snuðra hafi hlaupið á þráðinn sem menn séu nú að reyna að greiða úr.






Tengdar fréttir

Stjórnarmyndunarviðræðum haldið áfram

Viðræðunefndir Samfylkingar og Vinstri grænna komu saman til fundar í herbergi forsætisnefndar Alþingis í Alþingishúsinu klukkan hálf tíu og sögðu samningamenn við fréttamann rétt fyrir fundinn að þau ætluðu ekki að standa upp af þessum fundi fyrr en að því verki loknu.

Vaxandi spenna í þinghúsinu

Fæðing nýrrar ríkisstjórnar virðist ganga treglegar en búist var við. Framsóknarmenn voru ekki sáttir við þau drög að nýjum ríkisstjórnarsáttmála sem þeim voru kynnt í morgun. Þeir fengu ný drög til skoðunar í hádeginu og fundar þingflokkur Framsóknarflokksins um þau.

Ný ríkisstjórn kynnt við styttu Jón Sigurðssonar

Stefnt er að því að ný ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna verði kynnt við styttu Jóns Sigurðssonar á Austurvelli klukkan sex í kvöld þar sem búsáhaldabyltingin svokallaða hófst. Gert er ráð fyrir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, gangi á fund Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, eftir hádegið og að forseti feli Jóhönnu Sigurðardóttur umboð til að mynda stjórn. Að öllum líkindum verður kosið laugardaginn 25. apríl.

Fundi þingflokks Samfylkingarinnar frestað

Þingflokksfundi Samfylkingarinnar sem átti að hefjast klukkan 15 hefur verið frestað til klukkan 10 í fyrramálið. Flokksstjórn Samfylkingarinnar á að koma saman klukkan 16 á Nasa og ræða stjórnarsáttmála og ráðherraskipan tilvonandi ríkisstjórnar. Líklegt verður að teljast að þeim fundi verði einnig frestað til morguns.

Ný ríkisstjórn kynnt á morgun

Búið er að fresta þingflokksfundum Vinstri grænna og Samfylkingarinnar þangað til klukkan 10 í fyrramálið. Fyrirhugað var að ný ríkisstjórn yrði kynnt á Austurvelli síðar í dag en búist er við að ekki verði af fyrr enn í hádeginu á morgun. Flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem halda átti í dag hefur einnig verið frestað og hefst hann klukkan 11 í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×