Innlent

Einn deyr á viku að meðaltali

Mikill ávinningur af skimun Skúli Skúlason segir mikilvægt að skima fyrir ristilkrabbameini. fréttablaðið/Daníel
Mikill ávinningur af skimun Skúli Skúlason segir mikilvægt að skima fyrir ristilkrabbameini. fréttablaðið/Daníel

„Við teljum mikinn ávinning af skimun fyrir ristilkrabbameini,“ segir Skúli Skúlason sem stýrt hefur undirbúningsvinnu fyrir stofnun félags fólks með ristilkrabbamein. Skúli segir þetta mikilvægt verkefni enda deyi vikulega einn Íslendingur af völdum ristilkrabbameins. Sjúkdómurinn er önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina á Íslandi. Alls dóu 271 á árunum 2002 til 2006, 122 konur og 149 karlar.

„Vandamálið er að krabbameinið greinist of seint og þrátt fyrir betri tækni þá er dánartíðnin hin sama og fyrir um 50 árum,“ segir Skúli. Hann bendir á að einfalt sé að skima og ná góðum árangri gagnvart sjúkdómnum ef hann greinist á fyrri stigum. „Það tekur oft á tíðum fjölda ára fyrir þennan sjúkdóm að verða banvænan og þann tíma höfum við til að finna hann,“ segir Skúli.

Helstu einkenni ristilkrabbameins eru blóð í hægðum og þreyta. Skúli hvetur alla sem finna fyrir þessum einkennum að hafa samband við sinn lækni.

Þriðjudaginn 30. júní verða stofnuð samtök þeirra sem greinst hafa með ristilkrabbamein.

Fundurinn hefst kl. 20:00 í húsi Krabbameinsfélagsins við Skógarhlíð.

-bþa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×