Innlent

Vill draga úr stofnanavæðingunni

Ráðherrar fá niðurstöður. Álfheiði Ingadóttir heilbrigðisráðherra og Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra voru afhentar niðurstöður starfshópsins í gær.
Fréttablaðið/gva
Ráðherrar fá niðurstöður. Álfheiði Ingadóttir heilbrigðisráðherra og Árna Páli Árnasyni félagsmálaráðherra voru afhentar niðurstöður starfshópsins í gær. Fréttablaðið/gva

Ísland á því sem næst heimsmet í að vista fólk á stofnunum og því þarf að breyta. Þetta segir í tilkynningu frá ViVe-verkefninu svokallaða um virkari velferð, sem skilaði niðurstöðum og tillögum að úrbótum til heilbrigðis- og félagsmálaráðherra í gær.

Starfshópur á vegum ViVe hefur unnið að tillögunum undanfarnar vikur.

Í hópnum eru Evald Krog, þekktur norskur baráttumaður fyrir réttindum fatlaðra, Guðjón Sigurðsson, formaður MND-félagsins, Guðmundur Magnússon, formaður ÖBÍ, Sigrún Björk Jakobsdóttir, formaður bæjarráðs Akureyrar, Sigursteinn Másson, formaður Geðhjálpar, og verkefnisstjórinn Oddur Ástráðsson.

Segir í niðurstöðunum að áður en til þess komi að málefni fatlaðra flytjist frá ríki til sveitarfélaga í ársbyrjun 2011 þurfi að vera búið að stíga stór skref í þá átt að tryggja að fötluðum standi til boða að lifa lífi sínu á eigin forsendum utan stofnana.

Til þess að svo megi verða þurfi að koma á fót einstaklingsmiðuðu aðstoðarmannakerfi og tryggja með lögum og samningum að réttur til aðstoðar fylgi hverjum og einum óháð búsetu.

Setja þurfi á fót virkan samráðsvettvang til að undirbúa málið og nauðsynlegar laga- og reglubreytingar þurfi að liggja fyrir eigi síðar en 1. maí 2010.

Samfélagslegur ávinningur af slíkri stefnubreytingu yrði umtalsverður, segir í niðurstöðunum.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×