Innlent

Fimm bíla árekstur við Leirvogsá

Enginn slasaðist þegar fimm bílar lentu í árekstri við Leirvogsá á Kjalarnesi í gærkvöldi. Þar var vonskuveður og flughálka og lokaði lögregla veginum um tíma. Víða er orðin ófærð á norðanverðu landinu og á Vestfjörðum og veðurspáin er slæm.

Ekki er vitað til þess að vegfarendur hafi lent í alvarlegum vandræðum, nema hvað aðstoða þurfti nokkra vegfarendur í Ísafjarðardjúpi. Víðast hvar var sáralítil umferð, að sögn lögreglu. Veðurstofan spáir norðan- og norðvestanátt, allt upp í 25 metra á sekúndu á Norðaustur- og Austurlandi og snjókomu þar. Ófærð er í grennd við Ísafjörð og Óshlíð og Súðavíkurhlíð verða ekki ruddar fyrr en veður lægir. Veðurstofan hefur lýst viðbúnaðarstigi á norðanverðum Vestfjörðum, en hús hafa ekki verið rýmd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×