Erlent

Nýtt klámhneyksli í breska innanríkisráðuneytinu

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Jacqui Smith á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir.
Jacqui Smith á ekki sjö dagana sæla um þessar mundir.

Sjaldan er ein báran stök segir hið fornkveðna og það virðist rætast sem aldrei fyrr hjá Jacqui Smith innanríkisráðherra þessa dagana. Eftir að upp komst um greiðslur þeirra hjónanna fyrir klámmyndir fyrir aðeins nokkrum dögum hefur nýtt mál nú litið dagsins ljós sem snertir sjálfa heimasíðu innanríkisráðuneytisins.

Þar var einhver vesalings maður að leita sér að upplýsingum um varnir gegn hryðjuverkum í gær þegar síðan beindi honum fyrirvaralaust inn á svæsna japanska klámsíðu. Kerfisstjórar ráðuneytisins brugðu skjótt við og fjarlægðu hlekkinn að klámsíðunni en málið þykir hið vandræðalegasta fyrir ráðherrann, sérstaklega í ljósi nýliðinna atburða.

Talsmaður ráðuneytisins segir tölvuþrjóta hafa náð að brjóta sér leið inn á hluta síðunnar og koma umræddum tengli þar fyrir. Góð og gild skýring en skaðinn er auðvitað þegar orðinn og eins og Paul Holmes, þingmaður frjálslyndra demókrata á breska þinginu, benti á er það grátbroslegt að innanríkisráðuneytinu sé treyst fyrir persónuupplýsingum um þúsundir Breta á meðan það eigi í stökustu vandræðum með að halda sinni eigin heimasíðu klámlausri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×