Innlent

Sigmundur segir Norðmenn til í risalán til Íslendinga

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins segir að Norski miðflokkurinn, systurflokkur Framsóknarflokksins, sé búinn að opna á að Íslendingum verði lánaðar verulegar upphæðir, allt að 2000 milljörðum íslenskra króna í gegnum tvíhliða samninga.

Því sé í raun um að ræða hærra lán en Norðurlöndin hafi lofað í tengslum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Sigmundur segir að Höskuldur Þórhallsson þingmaður Framsóknarflokksins hafi síðustu daga verið í Noregi í viðræðum vegna málsins.

„Þessar hugmyndir velta hinsvegar á viðbrögðum norskra sósíalista og ég held að þeir byggi sína skoðun á því hvað kemur frá Vinstri grænum hér á landi," segir Sigmundur í samtali við fréttastofu. Þar af leiði að VG leiki lykilhlutverk í framhaldi málsins. „Ef það hefði verið hægt að koma á slíkum samningum áður en Ögmundur hvarf úr ríkisstjórn hefði það væntanlega auðveldað lausn Icesave deilunnar," segir Sigmundur.

Hann vill þó ekki útiloka að málið sé úr sögunni þó Ögmundur hverfi á braut en framsóknarmenn hafa ekki náð að ræða málið við Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra. Sigmundur og Höskuldur voru einmitt staddir í Stjórnarráðinu í hádeginu þegar Ögmundur sagði af sér. Málið hefur þó að sögn Sigmundar verið  rætt við fulltrúa VG.

Aðspurður um kjör á þessu láni vildi Sigmundur ekki tjá sig um það að svo stöddu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×