Innlent

Aldrei fleiri útskrifast úr háskólanámi

Frá Háskólatorgi í Háskóla Íslands.
Frá Háskólatorgi í Háskóla Íslands.

Aldrei hafa fleiri nemendur útskrifast af háskólastigi skólaárið 2007 til 2008 en þá útskrifuðust 3588 nemendur með 3611 próf. Konur voru tveir þriðju, eða 66,4%, þeirra sem útskrifuðust með próf á háskólastigi og karlar þriðjungur, 33,6%, útskrifaðra, sem er svipað og verið hefur undanfarin ár. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.

Ekki hafa fleiri lokið meistaragráðu á Íslandi á einu skólaári til þessa. Þeir voru 735 og fjölgaði um 123 frá fyrra ári, sem er fjölgun um fimmtung. Þá luku 23 doktorsprófi á skólaárinu, og hafa ekki fleiri doktorar útskrifast á einu ári frá íslenskum háskólum.

Stúdentum fjölgar

Alls brautskráðust 5536 nemendur úr framhaldsskólum með 6150 próf skólaárið 2007 til 2008. Þetta er fjölgun um 482 nemendur frá fyrra ári, eða 9,5%. Aldrei áður hafa svo margir nemendur útskrifast af framhaldsskólastigi á einu skólaári.

Á vef Hagstofunnar segir að ástæðan sé meðal annars sú að stórir árgangar séu að fara í gegnum framhaldsskólann. Konur voru nokkru fleiri en karlar meðal brautskráðra eða 53,3% nemenda.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×