Enski boltinn

Nemanja Vidic vill fleiri titla

Elvar Geir Magnússon skrifar
Vidic vill allavega þrjá titla til United á þessu tímabili.
Vidic vill allavega þrjá titla til United á þessu tímabili.

„Ég vann einn titil fyrir tveimur árum og tvo á því síðasta. Ég vona að þessi þróun haldi áfram," segir Nemanja Vidic, varnamaðurinn ógnarsterki hjá Manchester United.

United hefur þegar unnið HM félagsliða á leiktíðinni og er enn í baráttunni um alla þrjá titlana á Englandi og í Meistaradeild Evrópu.

„Við erum í góðri stöðu að berjast um titla á öllum vígstöðum. Þetta verður mjög erfitt þar sem margir leikir eru eftir. Ég vona að við vinnum fleiri titla en á síðasta tímabili, ég er bjartsýnn á það," sagði Vidic en United vann Englandsmeistaratitilinn og Meistaradeildina á síðasta tímabili.

Vidic hefur verið frábær í hjarta varnar Manchester United og er talinn líklegur til að verða fyrir valinu sem besti leikmaður tímabilsins. United getur náð fimm stiga forystu í deildinni á miðvikudag ef liðinu tekst að sigra Fulham.

„Ég hef tekið framförum og verið hluti af liði sem er sigursælt. Það var klárlega rétt ákvörðun að koma til United, ég efaðist aldrei um það. Það er gaman að vinna persónulega til verðlauna en það er viðurkenning sem maður nýtur meira eftir ferilinn. Meðan maður spilar þá hugsar maður bara um að liðinu gangi sem best," sagði Vidic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×