Innlent

240 manns sótt foreldranámskeið eftir bankahrun

Hafsteinn Gunnar Hauksson skrifar
Ólafur Gunnarsson, fjölskylduráðgjafi, segir foreldra á námskeiðinu ánægða.
Ólafur Gunnarsson, fjölskylduráðgjafi, segir foreldra á námskeiðinu ánægða.
„Eftir meira en tíu ára starf mitt á þessu sviði, þá er þetta okkar mesti árangur fram að þessu," segir Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskylduráðgjafi. 120 pör hafa sótt tíu foreldranámskeið sem ráðgjafarfyrirtæki Ólafs, ÓB-ráðgjöf, setti á fót í kjölfar bankahrunsins í samstarfi við þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar og heilsugæslustöðvar.

Samkvæmt aðstandendum námskeiðsins hjálpar það til við að undirbúa verðandi foreldra og foreldra barna allt að þriggja ára fyrir eitt mikilvægasta verkefni lífsins; að ala upp barn. Námskeiðinu, sem kallað er Barnið komið heim, er ætlað að hjálpa þátttakendum að viðhalda og efla samband sitt samhliða foreldrahlutverkinu.

Ólafur segir álag á nýbökuðum foreldrum mikið, og það hafi enn aukist í kjölfar bankahrunsins þegar óvissa á heimilum er mikil. Að hans sögn sýna rannsóknir að foreldrar foreldrar upplifi minni ánægju í sambandinu fyrstu þrjú árin eftir fæðingu barns en áður var.

Hins vegar bendi rannsókn sem birt var 2007 til þess að pör sem sæki námskeiðið upplifi mun minni ánægjurýrnun en svo. Hann segir foreldra verða næmari fyrir þörfum barnanna og börnin sýni minni streitu og brosi meira.

Hann segir stöðumat sem gert er eftir hvern tíma sýna að þátttakendur á námskeiðunum, sem haldin voru í vetur, eru mjög ánægðir og telja gagnsemi þeirra mjög mikla.

Námskeiðið, sem ber nafnið Barnið komið heim, byggir á rannsóknum hjónanna og sálfræðinganna John og Julie Gottman, en þau standa framarlega í rannsóknum á hjónabandinu á heimsvísu. Námskeiðið er sex vikur að lengd og er kennt einu sinni í viku, tvo tíma í senn.

Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um næsta námskeið hjá ogg@obradgjof.is og í síma 553-9400, en það hefst 6. júlí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×