Innlent

Stjórnin sögð keyra Icesave í gegnum Alþingi

Gunnar Bragi Sveinsson.
Gunnar Bragi Sveinsson. Mynd/Vilhelm Gunnarsson
Stjórnarandstaðan sakaði ríkisstjórnina í dag um að reyna keyra Icesave frumvarpið í gegnum Alþingi. Fjárlaganefnd lauk sinni umfjöllun um frumvarpið í gær þrátt fyrir mótmæli minnihlutans.

Minnihluti fjárlaganefndar vildi fresta afgreiðslu frumvarpsins í gær til að kynna sér betur álit efnahags- og skattanefndar. Frumvarpið var hins vegar afgreitt með sex atkvæðum meirihlutans gegn fimm.

„Það á að keyra þetta í gegn hvað sem það kostar. Þannig er það nú bara þannig blasir það við okkur þingmönnum og þjóðinni," sagði Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

„Ég gerði grein fyrir ástæðunni inni í fjárlaganefnd í gær. Ég taldi að málið væri fullreifað og þeir beiðni sem komu fram mundi ekki bæta neinu við málið," sagði Guðbjartur Hannesson, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndar, í umræðunum í dag.

Frumvarpið fer í aðra umræðu á fimmtudag en stjórnarandstaðan segir að ekki sé lengur hægt að treyst á efnahagslega fyrirvara samkomulagsins.

„Lagalegir skýrir fyrirvarar hafa verið felldir út. Sallaðir niður, brytjaðir niður og í staðinn eru komnar almennar loðnar pólitískar yfirlýsingar," sagði Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×