Innlent

Sektaður fyrir að selja svikinn þorsk

Eigandi „Fish‘n‘Chips“ veitingastaðar í Kidderminster í Worcestershire í Englandi hefur verið dæmdur til að greiða sekt sem svarar til 675.000 íslenskra króna fyrir að selja viðskiptavinum sínum eldisfiskinn pangasius sem þorsk.

Þetta er annað tilvikið af þessum toga sem upp kemur í umræddri borg en lög frá 1990 gera það heimilt að sekta veitingastaði ef svikin komast upp.

Þetta er hins vegar aðeins eitt margra dæma sem upp hafa komið á Bretlandseyjum að undanförnu en þar hefur færst í vöxt að reynt sé að selja fiskkaupendum svikna vöru. Innflutningur á pangasius, sem er ódýr eldisfiskur frá Víetnam, hefur stóraukist í Evrópu á síðustu misserum.

Yfirvöld í Worcestershire hafa látið þau boð út ganga að hart verði tekið á vörusvikum sem þessum. Meðal annars er neytendum gert kleift að hringja í sérstakan síma og tilkynna um hugsanleg svik.

Talsmaður þeirra, John Dell, segir í samtali við staðarblaðið The Shuttle, að yfirvöld séu staðráðin í að útrýma ólögmætum viðskiptaháttum. Þeir sem staðnir verði að slíku megi vænta hárra sekta.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×