Innlent

Upp um tvo milljarða

Greiðslur til bænda og samtaka verða hækkaðar milli ára, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í gær.Fréttablaðið/GVA
Greiðslur til bænda og samtaka verða hækkaðar milli ára, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í gær.Fréttablaðið/GVA

Ríkissjóður mun auka útgjöld til landbúnaðar- og sjávarútvegsmála um 7 prósent á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram í gær. Greiðslur samkvæmt samningum við bændur og samtök þeirra og til ýmissa sjóða og verkefna sem ríkið styrkir í landbúnaði hækka úr 11,7 milljörðum í ár í 13,7 milljarða á næsta ári.

Greiðslur til kúabænda, samkvæmt búvörusamningi, verða 5,5 milljarðar á næsta ári en eru 5,4 milljarðar á þessu ári.

Til sauðfjárbænda munu renna 4,1 milljarður króna á árinu 2010 en greiðslurnar nema 4 milljörðum á þessu ári.

Garðyrkjubændur fá greidda 421 milljón árið 2010 en fá 413 milljónir í ár.

Framlög til ýmissa sjóða í þágu landbúnaðar verða tvöfölduð á næsta ári og munu greiðslur í þá liði nema 3.000 milljónum króna í stað 1.500 milljóna í ár.

Framlög til Bændasamtaka Íslands verða hins vegar dregin saman. Þau nema um 750 milljónum króna í ár en ríkissjóður mun greiða samtökunum 667 milljónir króna á næsta ári, samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Þær greiðslur byggjast á samningi sem rennur út á næsta ári.

- pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×