Innlent

Sigrún Elsa: Ég er ekki að misskilja neitt

Sigrún Elsa Smáradóttir.
Sigrún Elsa Smáradóttir.

„Það er einfaldlega ekki rétt sem stjórnarformaðurinn heldur fram að rekja megi hluta kostnaðaraukans vegna tafa á álveri í Helguvík til aðgerða ríkistjórnarinnar," segir Sigrún Elsa Smáradóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, en stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur sagði fyrr í dag að Sigrún Elsa væri að misskilja.

Þá sagði hann að Orkuveita Reykjavíkur sæi fram á hundruð milljóna króna kostnaðarauka vegna tafa á Helguvíkurverkefninu. Hluta tjónsins ræki hann til aðgerða ríkisstjórnarinnar. Guðlaugur sagðist ekki hafa átt við þann kostnað sem þegar er fallinn á Orkuveituna.

Þessu mótmælir Sigrún Elsa og segir: „Tafir við álver í Helguvík hafa ekkert með ríkistjórnina að gera. Hvorki hefur tekist að fjármagna virkjanirnar né álverið en OR og Norðurál ætluðu að ganga frá bindandi samningi í sumar það hefur ekki gengið eftir."

Hún segir ennfremur að þó Orkuveitan fái nú afgreitt lán fá Evrópska Fjárfestingabankanum sé enn langt í land með að Hverahlíðavirkjun og Hellisheiðavirkjun séu full fjármagnaðar.

„Skilja hefur mátt á stjórnarformanni OR í fjölmiðlum að lán frá Evrópska þróunarbankanum sé á næsta leyti en staðreynd málsins er sú að þær viðræður eru á byrjunarreit og langt í frá í hendi þó verið geti að aðildarviðræður við Evrópusambandið geti hjálpað þar til," segi Sigrún Elsa og bætir við að ljóst er að ekki verður farið í Hverahlíðavirkjun fyrr en hún er fullfjármögnuð og bindandi orkusölusamningur, með eðlilegri arðssemi, liggur fyrir.

„Þannig er ekki heiðarlegt að kenna ríkistjórninni um seinkun á virkjunarframkvæmdum OR, óvissu um hvort hægt verði að taka á móti fimm aflvélum eða aukinn kostnað OR vegna tafanna," segir hún að lokum.


Tengdar fréttir

Stjórnarformaður OR: Sigrún er að misskilja

Guðlaugur Sverrisson formaður stjórnar Orkuveitu Reykjavíkur telur að ákveðins misskilnings gæti hjá Sigrúnu Elsu Smáradóttur fulltrúa Samfylkingarinnar í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×