Innlent

Búast við að tapa 600 störfum

Byggingariðnaðurinn hefur fengið á sig þung högg í hruninu.
fréttablaðið/gva
Byggingariðnaðurinn hefur fengið á sig þung högg í hruninu. fréttablaðið/gva

Stærstu fyrirtækin innan Samtaka iðnaðarins (SI) búast við að störfum fækki álíka mikið út árið og fyrstu sex mánuði ársins. Frá áramótum hefur störfum fækkað um rúmlega 600 og ef spáin rætist fækkar starfsmönnum þessara fyrirtækja um rúm þrettán prósent á árinu.

Þetta sýnir ný könnun SI um ástand og horfur hjá stærstu fyrirtækjum innan sambandsins. Svör bárust frá 140 félagsmönnum.

Könnunin sýnir að almennt eru ekki stóráföll varðandi tapaðar útistandandi kröfur, eins og við hefði mátt búast. Á þessu eru undantekningar og dæmi eru um fyrirtæki sem óttast að tapa allt að tuttugu prósentum af ársveltu sinni vegna vanefnda.

Þeir sem leitað hafa til bankastofnana um fyrirgreiðslu eru flestir jákvæðir en margir nefna ákvarðanafælni. Starfsmenn banka virðist ekki hafa umboð frá stjórn og eigendum til að taka nauðsynlegar ákvarðanir. Kom fram í könnuninni að bankarnir ráðlegðu kennitöluflakk.

Svört atvinnustarfsemi er meira áberandi en áður og eftir því sem fyrirtækin eru minni eru slík viðskipti meira áberandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×