Innlent

Icesave-sátt rædd á Alþingi

Samkomulag um skuld­bind­ingar Íslendinga vegna Icesave-innistæðna verður til umræðu á Alþingi í dag. Baldvin Jónsson, sem er í stjórn Borgaraflokksins, hefur boðað til mótmæla á Austurvelli klukkan þrjú þar sem því er mótmælt að gengið verði að þessu samkomulagi.

Þórólfur Matthíasson hagfræðiprófessor segir að Íslendingar megi nokkuð vel við una þótt hann skilji vissulega gagnrýni þeirra sem hefðu viljað láta á það reyna að fá hagstæðari úrlausn. Segir hann það mikilvægt að með samkomulaginu sé komið í veg fyrir að Íslendingar lendi í skaðabótamálum fyrir að mismuna kröfuhöfum. Einnig sé mikilvægt að sett hafi verið hámark á þann skaða sem við hljótum af málinu og hann sé lægri en það sem miðað var við þegar gert var upp við íslenska kröfuhafa. Einnig séu möguleikar á að málið verði endurskoðað eftir sjö ár þegar tvenn stjórnarskipti, að minnsta kosti, hafi átt sér stað í Bretlandi.

Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðingur segist hins vegar eiga erfitt með að skilja af hverju Íslendingar reyndu ekki að vinna þeim málstað fylgis að Bretar ættu að sitja uppi með skuldbinding­arnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×