Innlent

Þingmaður ósáttur við aðferð við kvótaúthlutun

Karl V. Matthíasson, þingmaður Samfylkingarinnar og nefndarmaður í sjávarútvegsnefnd er afar ósáttur við þá ákvörðun sjávarútvegsráðherra að úthluta auknum kvóta til útgerðanna. Karl segir að mun nærtækara hefði verið að setja þau 30 þúsund tonn af þorski sem ákveðið var að bæta við kvótann í dag á markað. Það hefði skilað meiri tekjum í ríkissjóð auk þess sem atvinna hefði skapast fyrir fjölda manns.

Í samtali við fréttastofu sagðist Karl vera ánægður með ákvörðun ráðherra að auka kvótann en hins vegar væri hann afar ósáttur með að viðbótið skyldi ekki vera sett á markað þannig að fleirum gæfist kostur á að spreyta sig í sjávarútvegi. „Ef ríkið hefði sett þetta á markað þá væri það að fá tekjur og ef að við gætum hugsað okkur að 100 krónur fáist fyrir kílóið erum við að fá þrjá milljarða í ríkissjóð og það er hægt að gera ýmislegt fyrir þá peninga," sagði Karl.

Hvorki talað við kóng né prest

Karl er einnig afar ósáttur með að ekkert samráð skuli vera haft í málinu. „Því miður var hvorki talað við kóng né prest í þessu máli, allra síst prest," segir Karl, sem er prestlærður. Hann segist hafa gert ráðherra grein fyrir því að hann muni tjá harða andstöðu við þessa aðferð. „Mér finns dapurlegt vegna umræðunnar í samfélaginu núna að ekki skuli hafa verið haft samráð um þetta. Mér finns það fyrir neðan allar hellur. Fyrir utan þau atvinnutækifæri sem myndu skapast hefði þetta verið sett á markað," segir Karl V. Matthíasson.












Tengdar fréttir

Þorskkvótinn aukinn um 30 þúsund tonn

Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur í dag gefið út reglugerð þar sem hámarksafli í þorski er aukinn um 30 þúsund tonn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×