Enski boltinn

Essien stefnir á endurkomu í mars

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Michael Essien, leikmaður Chelsea.
Michael Essien, leikmaður Chelsea. Nordic Photos / Getty Images
Michael Essien stefnir á að spila með Chelsea á nýjan leik í mars næstkomandi en hann er nú að jafna sig á krossbandsslitum í hné.

Essien meiddist í ágúst síðastliðnum en hefur verið að ná góðum árangri í endurhæfingu sinni. Hann er á meðal þeirra leikmanna sem eru gjaldgengir með Chelsea í Meistaradeild Evrópu og er hann vongóður um að geta tekið þátt í tímabilinu með liðinu.

„Samkvæmt sjúkraþjálfara Chelsea ætti það ekki að taka nema einn mánuð í viðbót svo ég geti byrjað að spila á fullu í 90 mínútur á ný," sagði Essien í samtali við enska fjölmiðla.

„Hann hefur fullvissað mig um að eftir að við höfum gengið í gegnum ákveðið æfingaferli næstu 2-3 vikurnar geti ég byrjað að spila aftur."

Essien sagði einnig í sama viðtali að hann væri ánægður með að Guus Hiddink væri tekinn við stöðu knattspyrnustjóra hjá liðinu.

„Hiddink hefur verið í þessum bransa lengi og veit hvað þarf til," sagði hann. „Hann er frábær knattspyrnustjóri og vona ég að hann nái að kalla fram það besta í okkur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×