Innlent

Nauðgaði tólf ára dreng

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í morgun karlmann til vistunar á viðeigandi stofnun fyrir að hafa nauðgað 12 ára gömlum dreng á sumarmánuðum árið 2003. Margrét K. Magnúsdóttir sálfræðingur bar vitni um það að brotaþoli væri afskaplega ráðvilltur eftir atburðinn og í dómnum kemur fram að hegðun drengsins og útlit breyttist verulega eftir atburðina.

Ákærði hefur ítrekað neitað sök. Ákærði hefur hins vegar játað að hafa ætlað að drepa mann en skotið hafi geigað. Verjandi ákærða kvað ákærða hafa játað það brot greiðlega og lýst því að gyðjurnar hafi sagt honum að drepa manninn. Því væri engin ástæða fyrir ákærða að neita sök í þessu máli, hefði honum verið skipað að framkvæma þann verknað. Ekkert í málinu styðji þær ásakanir sem væru bornar á ákærða.

Dómnum þótti hins vegar sannað að brotið hefði verið framið. Í vottorði Tómasar Zoëga geðlæknis kemur fram að erfitt sé að meta hvort alvarleg geðveiki ákærða sé af því tagi að hann hafi verið ófær um að stjórna gerðum sínum á þeim tíma sem meint brot sé talið hafa átt sér stað. Hins vegar fellst dómurinn á það mat geðlæknisins að borin von sé að refsing í tilviki ákærða muni bera árangur. Hann var því dæmdur til vistunar á viðeigandi stofnun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×