Innlent

Dagur í varaformanninn - hugsaði aldrei um formanninn

Breki Logason skrifar

Dagur B. Eggertsson hefur ákveðið að gefa kost á sér til embættis varaformanns á landsfundi Samfylkingarinnar í lok mars. Hann segist ekki hafa velt fyrir sér að fara í formanninn. Árni Páll Árnason þingmaður gefur einnig kost á sér í embættið. Dagur lítur á Árna Pál sem meðframbjóðanda frekar en mótframbjóðanda.

„Ég hef verið að hugleiða þetta í nokkurn tíma og ákvað að stíga fram ekki síst vegna þess að mér finnst mikilvægt að stjórnmálaflokkarnir opni bæði glugga og hurðir og verði vettvangur fyrir þennan mikla samfélagslega áhuga sem er í gangi," segir Dagur í samtali við fréttastofu.

Hann segir Samfylkinguna lengi hafa verið í forystu fyrir lýðræðislegar umræður og leikreglur í pólitík og telur að flokkurinn verði að opna fyrir umræður um leiðir út úr kreppunni. „Ég hef mikinn áhuga á að virkja fólk til þáttöku."

Dagur segist ætla að halda áfram þáttöku sinni í borgarmálum og taka þátt í kosningum þar að ári liðnu. „Ég sé það frekar sem styrkleika fyrir forystu flokksins að hafa breiða skírskotun og tengsl við sveitastjórnarstigið um allt land."

Dagur segist ekki hafa velt fyrir sér að bjóða sig fram til formanns flokksins.

„Ég finn að ýmsir urður fyrir vonbrigðum með að Samfylkingin hafi ekki náð að snúa við blaðinu á þessum átján mánuðum frá átján ára frjálshyggjuárum Sjálfstæðisflokksins. Það tókst ekki því miður. Þess vegna slitum við ríkisstjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokknum og mynduðum nýtt. Á þeim grunni göngum við til kosninga."

Aðspurður hvort Ingibjörg hefði átt að stíga til hliðar og axla þannig ábyrgð segir Dagur: „Hún gerir það með því að afhenda Jóhönnu Sigurðardóttur forystuna en við þurfum líka á kröftum hennar og reynslu að halda þegar hún hefur náð sér að fullu."

Aðspurður um komandi baráttu við Árna Pál Árnason á landsfundi segist Dagur frekar líta á hann sem meðframbjóðanda en mótframbjóðanda. „Við erum í raun að berjast fyrir sömu hlutunum."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×