Íslenski boltinn

Jónas Grani: Hann fór í hendina á mér

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jónas Grani í búningi FH.
Jónas Grani í búningi FH.

Jónas Grani Garðarsson skoraði annað mark Fjölnis þegar þeir unnu góðan 3-1 sigur á Stjörnunni í Grafarvogi í kvöld. Hann var mjög sáttur í samtali við Vísi í leikslok.

"Þetta er allt annað líf. Þetta gengur út á að vinna og það er hundleiðinlegt að tapa. Í síðasta leik breyttum við um kerfi og þurftum aðeins að átta okkur á því. Við verðum auðvitað að byrja á varnarleiknum og passa að við fáum ekki á okkur mark. Þá þarftu bara eitt upphlaup eða eitt horn og þá ertu kominn með mark og þú vinnur leikinn. Þegar vörnin er komin í lag þá getur sóknarleikurinn farið að ganga og við vorum skrefi framar í því í dag," sagði Jónas Grani ánægður í leikslok.

Stjörnumenn urðu brjálaðir eftir að Jónas Grani kom Fjölnismönnum yfir á nýjan leik á 76.mínútu. Þeir vildu meina að hann hefði lagt fyrir sig boltann með hendinni þegar hann slapp í gegn.

"Hann fór í hendina á mér. Ég er samt ekki sammála því að það eigi að vera aukaspyrna. Það skiptir ekki máli hvort hann fellur hálfan meter til hægri eða vinstri, þetta gerist í hreyfingunni og ég held þetta sé aldrei aukaspyrna. En já, hann fór í hendina á mér," bætti Húsvíkingurinn knái við.

Stjörnumenn ógnuðu marki Fjölnis töluvert eftir að þeir jöfnuðu metin en Jónas Grani sagðist ekki hafa verið smeykur þrátt fyrir þetta.

"Mér leið nú alltaf vel með þetta. Við vissum að þeir kæmu brjálaðir í seinni hálfleikinn þar sem þeir voru undir og yrðu að sækja. Við brugðumst kannski ekki alveg nógu vel við, gleymdum okkur í smá stund en ég var eiginlega allan tímann sannfærður um það að við myndum klára þennan leik."

"Við vorum auðvitað komnir upp við vegg og niður í gólf og þaðan er spyrnan best, frá botninum. Við ætlum bara að klára þetta og tökum einn leik fyrir í einu. Næst er það KR heima og það er bara að halda áfram í vinnunni og vonandi gengur það vel," sagði Jónas Grani að lokum í samtali við Vísi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×